Um næturvætu

Orsakir næturvætu hjá börnum

Ekkert barn vill pissa í rúmið og það gerist ekki af því að þau séu löt eða óþæg. Það þýðir ekki heldur að þau séu þroskaskert eða eigi við tilfinningaleg vandamál að stríða. Hvers vegna gerist það þá?
Það getur hjálpað bæði þér og barninu þínu að takast á við vandann ef þið vitið ástæðurnar fyrir honum. Læknisskoðun getur útilokað þvagrásarkvilla og veitt skýringu á ástæðunum sem kunna að vera fyrir næturvætunni. Barnið kann líka að vera á vissu þroskastigi sem það vex upp úr fyrr eða síðar.
Næturvæta stafar að öllum líkindum af einni af þeim algengu orsökum sem taldar eru upp hér að neðan.

Erfðaþættir

Næturvæta er oft arfgeng. Ef annað foreldranna var vætubarn eru u.þ.b. 40% líkur á að barnið verði það líka. Ef báðir foreldrar voru vætubörn aukast líkurnar í 70%.

Hormónar

Heiladingullinn gefur frá sér þvagtemprandi hormón þegar menn sofa til að draga úr þvagmyndun að næturlagi. Þess vegna getum við sofið heila nótt án þess að þurfa að pissa. Nægileg framleiðsla hormónsins tekur lengri tíma hjá sumum börnum en öðrum og þess vegna væta þau rúmið.

Stærð þvagblöðru

Þvagblaðra sumra barna getur ekki geymt nægilega mikið þvag miðað við aldur. Blaðran getur því ekki geymt allt þvagið sem myndast um nóttina. Þetta getur vel verið ástæðan, þó að myndun þvagtemprandi hormóns sé nægilega mikil. Þú getur hjálpað barninu þínu að auka geymslugetu þvagblöðrunnar með því að lengja hægt og rólega tímann á milli klósettferða á daginn. Þannig verður blaðran færari um að geyma þvagið næturlangt.

Boð frá heila til þvagblöðru

Stundum bregst heilinn ekki við boðum um að þvagblaðran sé full. Heilinn á að vekja barnið svo að það fari á klósettið og tæmi blöðruna en þessi tengsli eru ekki enn komin á.

Djúpur svefn

Þegar við sofum framleiðir heiladingullinn eins og áður var nefnt þvagtemprandi hormón sem dregur úr þvagmyndun nýrnanna svo að við þurfum ekki að vakna til að pissa. Sum börn eru einfaldlega á því þroskaskeiði að framleiðsla hormónsins er ekki nægilega mikil og þess vegna væta þau rúmið.

Get Adobe Flash player